Innlent

Orkuverð til álversins opinbert

Samningur Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál vegna álvers í Helguvík er með hagstæðari samningum sem veitan hefur gert til álfyrirtækis, segir Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Forstjóri Orkuveitunnar staðfestir að verðið sé nærri tveimur komma einni krónu á kílóvattstund.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, staðfesti í samtali við fréttastofu að þessi tala, 2,1 króna, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, sé ekki fjarri lagi og gæti einhvern tímann á tímabilinu verið rétt en orkuverðið er bæði háð dollar og álverði. Samningurinn við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík er til 25 ára og á þeim tíma áætlar Orkuveitan, segir Guðmundur, að fá um 40 milljarða fyrir raforkuna til álversins.

Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar Orkuveitunnar, vildi ekki koma í viðtal en sagði að samningurinn væri Orkuveitunni mjög hagstæður. Orkuverð hafi farið hækkandi með hverjum nýjum samningi sem gerður hafi verið og þessi tiltekni samningur væri með þeim hagstæðari sem Orkuveitan hefur gert við álfyrirtæki en hún selur til álveranna í Straumsvík og á Grundartanga.

Forstjóri Orkuveitunnar segir að heita vatnið til borgarbúa myndi hækka ef ekki væri fyrir þennan stóra raforkusamning. Dagur B. Eggertsson er ekki sammála því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×