Fótbolti

Ancelotti: Gerrard bullar

NordicPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti, þjálfari Milan, segir Steven Gerrard hafa verið að bulla þegar hann sagði að Milan hafi byrjað að fagna sigri í Meistaradeildinni í hálfleik úrslitaleiks liðanna árið 2005. Hann segir jafnframt að tapið þá eftir að hafa verið 3-0 yfir séu ekki stærstu mistök sín á ferlinum og bendir á annað áhugavert atriði í því sambandi.

"Það er aðeins ein leið til að lýsa því sem Gerrard sagði eftir leikinn árið 2005 - Það er bull," sagði Ancelotti. Við fögnuðum ekki sigri þó við værum 3-0 yfir í hálfleik, heldur sagði ég mínum mönnum þvert á móti að það væri enn mikið eftir af leiknum. Við misstum einbeitingu á sex mínútna kafla í leiknum og það kostaði okkur sigurinn," sagði Ancelotti og bætti við að tapið í Istanbul hafi ekki verið mesta klúður sitt á ferlinum. "Nei, alls ekki. Stærstu mistök sem ég hef gert sem þjálfari voru að átta mig ekki á því þegar ég stýrði Juventus á sínum tíma - að Thierry Henry væri stórkostlegur framherji," sagði Ancelotti en hann notaði Henry á kantinum.

Ancelotti er ekki eini leikmaður Milan sem er ósáttur við Steven Gerrard, því miðjumaðurinn Gennaro Gattuso á líka nokkuð vantalað við fyrirliða enska liðsins. Gattuso gengur undir viðurnefninu Rino (nashyrningur) en Gerrard gerði grín að honum í ævisögu sinni og sagði hann líkari kettlingi.

"Ef Gerrard segir að ég sé eins og kettlingur - hlýt ég að vera ljótur og skeggjaður kettlingur," sagði Gattuso og ætlar ekki að láta þetta hafa áhrif á sig annað kvöld þegar liðin mætast að nýju í úrslitaleiknum. "Ég mun ekki bregðast sérstaklega við þessum ummælum hans. Hann er frábær leikmaður og ég mun svara honum á vellinum. Minningarnar frá Istanbul eru enn með okkur og við munum nota þær til að koma okkur í gírinn fyrir leikinn. Margar lygar voru sagðar eftir leikinn í Istanbul," sagði Gattuso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×