Fótbolti

Zenden meiddur – Kewell í byrjunarliðið?

Harry Kewell hefur ekki spilað alvöru leik síðan á HM í Þýskalandi síðasta sumar en gæti komið til greina í byrjunarlið Liverpool gegn AC Mílan á miðvikudaginn.
Harry Kewell hefur ekki spilað alvöru leik síðan á HM í Þýskalandi síðasta sumar en gæti komið til greina í byrjunarlið Liverpool gegn AC Mílan á miðvikudaginn. MYND/Getty

Hollenski vængmaðurinn Boudewijn Zenden styðst nú við hækjur eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í æfingabúðum Liverpool í La Manga á Spáni, þar sem liðið undirbýr sig nú af kappi fyrir úrslitaleikinn gegn AC Milan í Meistaradeildinni á miðvikudag. Ólíklegt er að Zenden verði orðinn leikfær og því hafa dyrnar í byrjunarliðið opnast fyrir Harry Kewell.

Kewell hefur verið meiddur allt tímabilið en gæti spilað sinn fyrsta og eina leik á tímabilinu í sjálfum úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Kewell hefur spilað fyrir varaliðið hjá Liverpool og þykir líka nokkuð vel út miðað við hversu lengi hann hefur verið fjarverandi.

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, gæti þó einnig spilað John Arne Riise á kantinum og sett Alvaro Arbeloa í bakvörðinn, en talið er að hann treysti hinum fljóta Mark Gonzalez ekki til að byrja inn á í svo mikilvægum leik. Það sem Kewell hefur hins vegar fram yfir Arbeloa er reynslan og telja enskir fjölmiðlungar að hún gæti jafnvel gert gæfumuninn.

Benitez vill þó ekki útiloka Zenden frá leiknum alveg strax. "Hann er meiddur á ökkla og eftir meðferð hjá lækni fékk hann ágætar fréttir. Bólgan er ekki eins slæm og við héldum en það er samt erfitt að segja til um hvernig hann verður á miðvikudaginn."

"Það er mjög slæmt fyrir okkur að vera án Zenden. Hann er mikill karakter og við þurfum á reynslu hans og þekkingu að halda í svona mikilvægum leik," segir Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×