Fótbolti

Kaka: Mikilvægasti leikurinn á ferlinum

Kaka undirbýr sig af kostgæfni fyrir úrslitaleikinn gegn Liverpool á miðvikudag.
Kaka undirbýr sig af kostgæfni fyrir úrslitaleikinn gegn Liverpool á miðvikudag. MYND/Getty

Brasilíski miðjumaðurinn Kaka hjá AC Milan segir að leikurinn gegn Liverpool í Meistaradeildinni á miðvikudaginn sé sá mikilvægasti hingað til á sínum ferli. Kaka var í liðinu sem beið lægri hlut gegn Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum og vill með engu móti endurupplifa þá tilfinningu.

Kaka hefur leikið frábærlega í Meistaradeildinni í vetur, ekki síst í leikjunum tveimur gegn Man. Utd. í undanúrslitunum, þar sem hann skoraði meðal annars þrjú mörk. Hinn 25 ára gamli sóknarþenkjandi miðjumaður er mjög sigurviss fyrir leikinn.

"Ég hef mikla trú á mínu liði og samherjum mínum. Í okkar huga kemur ekkert annað en sigur til greina," segir Kaka. "Það er ánægjulegt að vera talinn mikilvægur leikmaður en það vinnur enginn einn leikmaður titla. Við erum með mjög gott lið og saman munum við spila til sigurs," bætti hann við.

"Liverpool er gríðarlega öflugt lið, vel skipulagt og líkamlega sterkt. Það er mikil hefð hjá Liverpool fyrir Evrópukeppni og lið sem slær út Barcelona og Chelsea hlýtur að eiga skilið að vera í úrslitunum."

"Það var gott að vinna Man. Utd. því í mínum huga er það sterkasta liðið í Evrópu um þessar mundir. Það yrði hrikalegt ef sá sigur væri til einskins ef við töpum úrslitaleiknum. Þess vegna er úrslitaleikurinn á miðvikudaginn sá mikilvægasti á mínum ferli," sagði Kaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×