Innlent

Chirac kveður þjóð sína

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Jacques Chirac í sjónvarpsávarpi sínu sem birt var undir kvöld.
Jacques Chirac í sjónvarpsávarpi sínu sem birt var undir kvöld. MYND/AFP

Jacques Chirac fráfarandi forseti Frakklands kvaddi þjóðina sem hann hefur leitt í áratug í sjónvarpsávarpi í dag. Chirac hefur verið í stjórnmálum í fjóra áratugi og sagðist vera stoltur af því að hafa sinnt skyldustörfum sínum vel. Hann lét í ljóst mikið traust á framtíð landsins og óskaði arftaka sínum og keppinaut, Nicholas Sarkozy, velfarnaðar í starfi.

Chirac er 74 ára. Hann mun formlega afhenda Sarkozy völdin á morgun. Hann hvatti samlanda sína til að standa ávallt saman. Stjórnmálaskýrendur segja orðin vísa til óeirðanna í París sem breiddust út um landið árið 2005.

Chirac sagðist einnig fullviss um að Frakkland myndi áfram vera leiðandi í Evrópumálum.

Þá sagði forsetinn að helstu verkefni heimsins væru friður, þróun og umhverfið. Hann hét því að nota áhrif sín til að tryggja að þessir þættir yrðu í forgangi í dagskrá stjórnmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×