Erlent

Madeleine McCann enn ófundin

Enn hefur ekkert spurst til litlu bresku telpunnar sem rænt var á Algarve í Portúgal fyrir viku síðan. Foreldrar hennar segjast enn vongóðir um að hún finnist heil á húfi.

Nú er rétt vika síðan hin þriggja ára gamla Madeleine McCann var numin á brott af hótelherbergi í Praia de Luz á Algarve en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér að borða. Í dag sendu þau frá sér yfirlýsingu þar sem þau sögðust enn bjartsýn á að dóttir þeirra kæmi í leitirnar og öllum aðferðum yrði beitt til að finna hana. Portúgalski knattspyrnumaðurinn Christiano Ronaldo bættist í gær í hóp þeirra fjölmörgu sem biðlað hafa til mannræningjanna.

Í dag var greint frá því að bútur úr barnsflík hefði fundist nærri hótelinu sem Madeleine var á en ekki er vitað hvort hann tengist hvarfi hennar. Portúgalska lögreglan hefur annars verið gagnrýnd fyrir seinagang í málinu og að upplýsa ekki nægilega vel um gang rannsóknarinnar en bresk stjórnvöld segjast þó treysta henni fullkomlega. Beðið var fyrir Madeleine í heimabæ hennar í Leicestershire á Englandi í gær og stuðningsóskir ritaðar til fjölskyldu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×