Körfubolti

Cleveland sópaði Washington

LeBron James og félagar kláruðu skylduverkefnið í nótt.
LeBron James og félagar kláruðu skylduverkefnið í nótt. NordicPhotos/GettyImages

Cleveland Cavaliers er komið í aðra umferð úrslitakeppni NBA eftir sigur á Washington í fjórða leik liðanna í nótt 97-90. Cleveland vann seríuna því 4-0 og var þetta í fyrsta skipti í sögu félagsins sem liðinu tekst það, en lið Washington átti aldrei möguleika í einvíginu með tvö stjörnuleikmenn á meiðslalistanum.

LeBron James skoraði 31 stig, hirti 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir Cleveland, Zydrunas Ilgauskas skoraði 20 stig og hirti 20 fráköst, Larry Hughes skoraði 19 stig og Drew Gooden 14 stig. Antawn Jamison var að venju atkvæðamestur hjá Washington með 31 stig, en liðið varð að sætta sig við að falla úr úrslitakeppninni fyrir Cleveland annað árið í röð. Serían í fyrra var þó öllu meira spennandi þar sem Cleveland vann þrjá leiki með samtals fimm stiga mun.

"Í fyrra snerist allt um að komast í úrslitakeppnina en nú er annað uppi á teningnum. Ég var að spila í minni fyrstu úrslitakeppni í fyrra og menn eins og Zydrunas höfðu þá ekki spilað í úrslitakeppni síðan á nýliðaári sínu. Nú er þessu verkefni lokið og komið að næsta skrefi í áttina til meistaratitilsins," sagði LeBron James eftir leikinn.

Það er nokkuð athyglisvert að þrjú lið hafa þegar tryggt sér 4-0 sigur í fyrstu umferðinni í Austurdeildinni og í fjórða einvíginu er New Jersey með þægilega 3-1 forystu gegn Toronto. Það er því ekki hægt að segja að fyrsta umferðin í austrinu hafi verið sérlega spennandi, en óvæntur 4-0 sigur Chicago á meisturum Miami hefur þó vissulega vakið mikla athygli.

Í annari umferð í Austurdeildinni mætast Detroit og Chicago í rimmu sem kemur til með að verða gríðarlega spennandi og áhugaverð, en Cleveland bíður nú eftir því að mæta sigurvegaranum úr einvígi New Jersey og Toronto. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×