Erlent

Árás í þingi glæpaverk hugleysingja

MYND/AP

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, lýsti árásinni í írakska þinginu í Bagdad í morgun sem glæpaverki hugleysingja og sagði að hún myndi ekki draga kjarkinn úr írökskum þingmönnum. Að minnsta kosti tveir írakskir þingmenn eru nú sagðir látnir og vel á annan tug manna særður eftir árásina sem varð í kaffiteríu í írakska þinginu þegar þingmenn og starfsmenn þingsins voru í hádegismat.

Lögregla telur að um sjálfsmorðsárás sé að ræða en útilokar þó ekki að öðrum aðferðum hafi verið beitt. Þingið er á svokölluðu græna svæði í Bagdad þar sem öryggisgæsla er sérstaklega ströng.

Bandaríkjastjórn hefur fordæmt árásina og sagði talsmaður Þjóðaröryggisstofnunar landsins að hún græfi ekki undan aðgerðum gegn uppreisnarhópum í Írak heldur lýsti fremur hörðum ásetningi uppreisnarmanna sem vildu ekki að Írakar byggju við frelsi.

Fyrr í morgun var vörubíll hlaðinn sprengiefni sprengdur í loft upp á fjölfarinni brú í norðurhluta höfuborgarinnar. Brúin rifnaði í sundur og tvö höf hennar steyptust niður í Tígris-fljótið fyrir neðan og með þeim fjölmargir bílar. Átta manns hið minnsta létust í þessu hermdarverki og á þriðja tug særðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×