Erlent

Írakar mótmæla í Najaf

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. MYND/AFP

Allt að milljón Sjíja múslimar mun í dag fylkja liði um götur Najaf í Írak til að mótmæla hersetu Bandaríkjamanna, fjórum árum eftir að Baghdad var hernumin. Öllu rólegra er í höfuðborginni sjálfri á þessum tímamótum, enda öll bílaumferð bönnuð í sólarhring af ótta við hryðjuverk.

Fjögur ár eru í dag frá því bandarískar hersveitir náðu höfuðborginni Baghdad á sitt vald, en afmælisveislan er í daprara lagi. Í stað gleði og fagnaðarláta er haldið upp á afmælið með því að banna alla bílaumferð í borginni. Frá því klukkan eitt í nótt hefur mátt heyra saumnál detta víða í borginni og í morgun voru fáir aðrir en hermenn á ferli. Það er táknrænt að það þurfi að banna alla bílaumferð í borginni heilum fjórum árum eftir að hún var hernumin. Öll þessi fjögur ár hafa einkennst af gífurlegu ofbeldi og bílsprengjum upp á nánast hvern einasta dag. Þó að enn sé talað um að með aðgerðum eigi að koma í veg fyrir borgarastyrjöld líta flestir svo á að búið sé að teygja það hugtak mikið, enda getur ástandið ekki versnað mikið.

Í Borginni Najaf í suðurhluta landsins hefur verið öllu meira fjör í morgun, þar sem tugþúsundir Sjía hafa hrópað slagorð og veifað spjöldum, til að mótmæla hersetu Bandaríkjamanna. Sjíjaklerkurinn Moktata Al-Sadr hvatti um helgina fylgismenn sína til að herða aðgerðir gegn Bandaríkjamönnum og það stendur ekki á viðbrögðunum. Búist er við allt að milljón manns á götum Najaf síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×