Erlent

Sérsveit gegn þjófum frá Austur-Evrópu

Óli Tynes skrifar
Farandþjófar eru vandamál bæði í Noregi og Svíþjóð.
Farandþjófar eru vandamál bæði í Noregi og Svíþjóð.

Norska lögreglan er að stofna sérsveit sem hefur það verkefni að uppræta innbrots- og þjófagengi frá Austur-Evrópu. Mikið er um slík gengi í Noregi og Svíþjóð. Sum þeirra koma sér upp höfuðstöðvum á afskekktum stöðum í löndunum tveimur og fara þaðan í ránsleiðangra.

Marie Björnland, lögreglustjóri í Vestfold segir mjög bagalegt að athafnir þessara glæpamanna skuli kasta rýrð á orðstír fjölda manna sem komi til Noregs til þess að vinna og séu velkomnir í landinu.

Hún leggur áherslu á að þarna verði að skilja á milli. Nú sé hinsvegar svo komið að þjófagengin séu orðin svo umsvifamikil að ekki verði hjá því komist að grípa til markvissra aðgerða. Þjófarnir séu svo bíræfnir að þeir steli upp í pantanir. Sem dæmi nefnir hún að um tíma hafi árekstrarpúðum verið stolið úr bílum í stórum stíl. Aðferðin við að fjarlægja þetta öryggistæki hafi alltaf verið sú sama, sem bendi ótvírætt til sérhæfingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×