Erlent

Öryggisráðið ræddi um framtíð Kosovo

Jónas Haraldsson skrifar
Martti Ahtisaari, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Kosovo.
Martti Ahtisaari, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Kosovo. MYND/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræddi í gærkvöldi í fyrsta sinn stöðu og framtíð Kosovo. Bandaríkin og Evrópuríki vildu stefna að endanlegu sjálfstæði héraðsins á meðan Rússland studdi þá hugmynd að Kosovo yrði áfram hluti af Serbíu.

Ágreiningur hinna fimm handhafa neitunarvalds gaf til kynna að það yrði erfitt að ná niðurstöðu um framtíð Kosovo. Héraðið hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og Norður-Atlantshafsbandalagsins síðan á árinu 1999. Forseti Kosovo, Fatmir Sejdiu, sagði fyrir fundinn að baráttan fyrir sjálfstæði hefði varað lengi og hana mætti rekja til deilna á milli Serba og íbúa Kosovo.

Martti Ahtisaari, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, lagði nýlega fram tillögu um að Kosovo yrði sjálfstætt svæði. Samkvæmt tillögunni fengi Kosovo eigin stjórnarskrá og sæti hjá Sameinuðu þjóðunum en það gæti ekki kallað sig sérstakt land. Rússar hafa hafnað hugmyndum um sjálfstæði Kosovo. Þeir styðja hugmyndir ráðamanna í Serbíu um að héraðið verði áfram hluti af landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×