Erlent

Ákvörðun um kosningar í Úkraínu endanleg

Viktor Jústsjenkó forseti Úkraínu segir að ákvörðun sín um að rjúfa þing og boða til kosninga sé endanleg og varar andstæðinga sína við að efna til uppþota. Þúsundir söfnuðust saman í höfuðborginni Kænugarði í dag til að mótmæla ákvörðun forsetans.

Loftið hefur verið lævi blandið í Úkraínu í dag eftir að forseti landsins, Viktor Jústjenkó, ákvað skyndilega að rjúfa þing og boða til kosninga í lok maí. Ástæða ákvörðunarinnar er grimmileg valdabarátta þeirra Viktors Janukovits, forsætsráðherra.

Á undanförnum mánuðum hefur Janukovits tekist að lokka yfir í þinglið sitt fjölmarga flokksbræður Jústsjenkós. Ekki vantar mikið upp á að ríkisstjórn hans hafi nægilegan styrk til að beita neitunarvaldi gegn ákvörðunum forsetans.

Þetta segir Jústjenkó hins vegar brjóta í bága við stjórnarskrána því einungis flokkar en ekki einstaklingar mega söðla um, og því hafi þingrof verið eina lausnin.

Janukovits brást ókvæða við ákvörðun forsetans og sagði hann hafa gert afdrifarík mistök. Þá neituðu nokkrir stuðningsmanna hans á þinginu að leggja niður störf og kröfðust þess að stjórnlagadómstóll landsins ógilti ákvörðunina.

Jústsjenkó kallaði Janukovits á sinn fund í dag og tjáði honum að sér yrði ekki haggað og varaði hann um leið við því að efna til uppþota.

Nokkur þúsund manns hafa síðan í gærkvöld tekið sér stöðu fyrir utan þinghúsið og mótmælt þingrofinu á friðsamlegan hátt, á sama torgi og appelsínugula byltingin svonefnda hófst haustið 2004 þegar þessir erkifjendur börðust um forsetaembættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×