Erlent

Vill ekki sjá frumvarp með áætlunum um brottflutning hermanna

MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti hvatti Bandaríkjaþing í dag til samþykkja hið fyrsta frumvarp um fjárveitingar til Íraksstríðsins þar sem ekki væri gert ráð fyrir skilyrðum um hvenær kalla ætti herinn heim frá Írak.

Deila hefur staðið á milli forsetans og þingsins vegna frumvarpsins í nærri tvo mánuði. Demókratar, sem hafa meirihluta á þingi, vilja að allir bandarískir hermenn verði komnir heim fyrir 31. mars á næsta ári en það telur Bush óraunhæft og hefur hótað að beita neitunarvaldi gegn frumvarpinu jafvel þótt það feli í sér mikilvæga fjármuni fyrir herinn.

Bush var harðorður í garð þingmeirihlutans í dag og sagði að þingið ætti ekki að segja herforingjum hvernig ætti í að heyja stríði. Aðeins 40 prósent af þeim liðsauka, sem samþykkt hefði verið að senda til Íraks til að reyna að bæta ástandið, væri kominn þangað en samt væru menn að ræða um að kalla herliðið heim áður en árangur næðist.

Þá sagði Bush að ef þingið kæmist ekki að niðurstöðu um frumvarp í málinu sem hann gæti skrifað undir fyrir miðjan apríl þyrfti að skera niður í tækjakaupum og tækjaviðhaldi í hernum. Til frekari niðurskurðar þyrfti að koma ef frumvarpið væri ekki orðið að lögum fyrir miðjan maí. Þá ítrekaði Bush að hann væri andsnúinn tímaáætlunum um brottflutning hermanna á þessu stigi og sagðist myndu beita neitunarvaldi gegn frumvarpi sem fæli slíkt í sér.

Bush sagði að enn fremur að ef menn gæfu eftir myndi ringulreið skapast í Bagdad sem gengi að hinu unga lýðræðisríki Írak dauðu. Þá myndi andstæðingum Bandaríkjanna vaxa ásmegin og aukin hætta skapast í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×