Erlent

Sprengt í Breska sendiráðinu í Teheran

Frá mótmælum fyrir utan utanríkisráðuneyti Írana fyrir helgina.
Frá mótmælum fyrir utan utanríkisráðuneyti Írana fyrir helgina. MYND/AFP

Nokkrar sprengingar heyrðust í sendiráði Bretlands í Teheran nú rétt í þessu. Reuters fréttastofan greinir frá því að vitni hafi heyrt nokkrar minni sprengingar og séð reyk inn í sendiráðsbyggingunni. Mómæli voru í gangi við sendiráðið vegna sjóliðadeilunnar þegar sprengjurnar sprungu.

Eitt vitni sagði átta heimagerðar sprengjur hafa sprungið.

 

Sky fréttastofan greinir frá því að um bensínsprengjur hafi verið að ræða. Ekki er talið að meiðsl hafi orðið á fólki og skemmdir eru taldar óverulegar. Á annað hundrað manns mótmæltu við sendiráðið og sumir hentu steinum og heimagerðum sprengjum að byggingunni.

Tim Marshall fréttaritari Sky segir um viðvörun að ræða. Tuttugu manns hafi tekið þátt í mótmælum vegna sjóliðadeilunnar á fimmtudag, nú væru þeir á annað hundrað. Næst yrðu þeir kannski þúsundir.

Bush Bandaríkjaforseti fordæmdi Írana fyrir afstöðu þeirra í sjóliðadeilunni í gær. Hann sagði hegðun þeirra óafsakanlega og sagðist styðja tilraunir Breta til að leysa deiluna á friðsamlegan hátt. Hann sagði engan vafa leika á að skip sjóliðanna hefði verið á siglingu í íraskri lögsögu þegar það var stöðvað.

Í gær fullyrti Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hið gagnstæða og sagði að bresk stjórnvöld gengju fram af hroka og eigingirni. Enginn vafi léki á að breska innrásarliðið - eins og hann orðaði það - hefði ætt inn í íranska landhelgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×