Innlent

Segir Hafnfirðinga munu una úrslitum kosninganna

Hafnfirðingar kjósa í dag um stækkun álversins í Straumsvík. Mikil spenna ríkir enda afar tvísýnt um úrslit en kjörstöðum verður lokað eftir tæpan hálftíma. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir kosningaþátttökuna sýna að rétt hafi verið að ganga til kosninga um málið.

Undanfarnir dagar hafa einkennst af kosningabaráttu stríðandi fylkinga í Hafnarfirði um stækkun álversins. Um tíma í gær þótti sumum Hafnfirðingum sem fréttastofa talaði við nóg um. Kosið var var á þremur stöðum í bænum og opnuðu kjörstaðir klukkan tíu í morgun. Snemma varð ljóst að kosningaþátttaka Hafnfirðinga yrði góð.

Í Víðistaðaskóla var stöðugur straumur fólks í allan dag og sömu sögu var að segja um hina tvo kjörstaðina.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri kaus í Víðistaðaskóla. Hann og aðrir Hafnfirðingar létu ekki langar biðraðir aftra sér frá því að taka afstöðu í þessu máli. Hann segir kosningaþátttakan sýna að rétt hafi verið að ganga til kosninga um málið.

Mikill hiti hefur verið í mönnum undanfarna daga vegna kosninganna og hafa sumir gengið svo langt að segja að kosningarnar hafi klofið bæjarfélagið. Lúðvík hefur ekki áhyggjur af því að bærinn verði í sárum eftir að úrslitin verða kunngerð. Hann segir bæjarbúa vana deilum eins og milli íþróttafélganna FH og Hauka og því búist hann við því að Hafnfirðingar muni una niðurstöðunum sama hverjar þær verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×