Erlent

Stoltenberg segir ESB-aðild úr sögunni

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir afar ólíklegt að Norðmenn sæki um aðild að Evrópusambandinu úr þessu. Leiðtogi Samfylkingarinnar segir þetta engu breyta um Evrópustefnu flokksins.

Stoltenberg hefur gegnt forsætisráðherraembættinu í Noregi í hálft annað ár en hann er jafnframt leiðtogi Verkamannaflokksins sem lengi hefur haft Evrópusambandsaðild á stefnuskránni. Ummæli hans í breska blaðinu Daily Telegraph í vikunni um að fullreynt sé að koma Noregi inn í ESB vekja því allnokkra athygli. Ástæðu þess segir Stoltenberg vera að Norðmenn hafi tvívegis hafnað aðild að sambandinu og auk þess sé efnahagur landsins með besta móti. Því hefur forsætisráðherrann ekki trú á að innganga Noregs í ESB verði framar rædd í alvöru. Málið hafi verið kveðið niður í eitt skipti fyrir öll.

Aðild Íslands og Noregs er oft rædd í sömu andránni enda er vandséð hvernig annað ríkið geti staðið utan ESB ef hitt fer þangað inn. Sú spurning vaknar því hvort yfirlýsing Stoltenbergs setji ekki Evrópustefnu Samfylkingarinnar í uppnám. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir svo ekki vera, stefnan er mótuð út frá forsendum Íslendinga. Hitt sé víst að ef Norðmenn gengju í ESB yrðu Íslendingar sjálfsagt að fylgja á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×