Innlent

Rektor HR hafnar ásökunum um spillingu

Háskólinn í Reykjavík samdi án útboðs um byggingu, fjármögnun og eignarhald á nýju húsnæði í Öskjuhlíð, við Nýsi sem Glitnir á þriðjungs hlut í. Forstjóri Glitnis, Bjarni Ármannsson, er jafnframt formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík. Stjórnarformaður Nýsis segir þetta siðferðilega óverjandi, en rektor segir samninginn faglega ákvörðun.

Viðskiptablaðið greinir frá gagnrýni Stefáns Þórarinssonar, stjórnarformanns Nýsis, í dag. Stefán er staddur í útlöndum en sagðist í samtali við fréttastofu í dag vera bullandi reiður. Málið snýst um 20 hektara lóð sem Reykjavíkurborg afhenti Háskólanum í Reykjavík. Í kjölfarið samdi Háskólinn við eignarhaldsfélagið Nýsi um uppbygginguna á hluta af lóðinni, eða fjórum hekturum, sem fara undir sjálfa háskólabygginguna. Í ljósi þess að skólinn greiðir aðeins kostnað af lóðinni, þ.e. gatnagerðargjöld, og að meirihluti rekstrarfjár, eða 60%, koma frá ríkinu, segir Stefán að samningur án útboðs sé spilling. Hann sagði jafnframt í samtali við fréttastofu að hann hefði talið að kolkrabbinn og klíkubósar þessa lands væru dauðir eða komnir á elliheimili. Svo væri greinilega ekki, aðrir og helmingi verri væru komnir í þeirra stað. Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, segir þetta hafa verið faglega ákvörðun. Fundað hafi verið með fjölmörgum aðilum áður en gengið var til samninga við Fasteign.

Áður óbirtar myndir af væntanlegri háskólabyggingu sýna að húsnæðið verður fremur lágreist glerbygging, skammt frá hinu vinsæla útivistarsvæði við Ylströndina. Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, segir að samningurinn við Fasteign sé verulega hagstæður af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi verði leigan hagstæð, í öðru lagi er kaupréttarákvæði í samningnum sem þýðir að á fimm ára fresti fær skólinn færi á að kaupa húsnæðið og í þriðja lagi eignast skólinn nærri þriðjungs hlut í eignarhaldsfélaginu Fasteign.

Fréttastofa leitaði í dag eftir viðbrögðum frá borgarstjóra, menntamálaráðherra og forstjóra Glitnis. Þau voru öll erlendis.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×