Erlent

Danska lögreglan skaut sjö á síðasta ári

Danska lögreglan skaut sjö menn á síðasta ári og af þeim létu fjórir lífið. Lögreglan skaut á síðasta ári alls 74 skotum, í starfi. Sá háttur er hafður á í Danmörku að telja fjölda þeirra skota sem skotið er sem gefur ekki endilega til kynna fjölda þeirra skipta sem byssum er beitt. Þannig var í einu tilfelli skotið tuttugu skotum á flóttabílstjóra, sem hlaut bana af. Sá var eftirlýstur glæpamaður.

Í mörgum tilfellum nægði lögreglunni að hóta með skotvopnum. Kylfum sínum beittu danskir lögreglumenn 372 sinnum á síðasta ári. Á Jótlandi hefur verið í gangi tilraunaverkefni með að beita piparúða, til þess að þurfa ekki að draga fram byssurnar. Búist er við að lögregluþjónar um allt landið fái piparúða í vopnasafn sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×