Innlent

Krefja Hótel Sögu um bætur

Aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda, sem fyrirhuguð var í Reykjavík í þessum mánuði en ekkert varð af, ætla að krefja Hótel Sögu um bætur fyrir að úthýsa þeim. Lögmaður hópsins segir að málið fari fyrir dóm, verði krafan ekki greidd, og útilokar ekki meiðyrðamál.

Það var í síðastamánuði sem mikil umræða spannst upp um svokallaða klámráðstefnu, eða öllu heldur hvataferð klámframleiðenda, sem fyrirhuguð var á Íslandi í byrjun mars. Að sögn aðstandenda Snowgathering ferðarinnar höfðu fjölmargir bókað sig og dagskrá undirbúin. Allir voru bókaðir á Hótel Sögu. Umræðan var óvægin og fjölmargir sem ályktuðu gegn heimsókninni.

Að lokum fór að Hótel Saga ákvað að vísa hópnum, 150 manns, frá. Ekkert varð af ferðinni þó margir hefðu keypt sér ferð til landsins.

Oddgeir Einarsson, lögðmaður hópsins, segir hollenska fyrirtækið Funix standa að kröfunni fyrir hönda allra þeirra sem telji sig hafa orðið fyrir skaða. Hann segir enn verið að afla gagna en krafa verði lögð fram á hendur Hótel Sögu á næstunni.

Oddgeir segir að hafni hótelið kröfunni alfarið og ekki verði um hana samið þá blasi við að stefna verði málinu fyrir íslenskum dómstólum.

Oddgeir segir hörð orð hafa verið látin falla í fjölmiðlum um hópinn. Margir hafi misst sig í öldu pólitísks rétttrúnaðar í þá daga sem umræðan hafi staðið. Hann segir umbjóðendur sína ekki útiloka meiðyrðamál en ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×