Innlent

Karlmaður hyggst kæra ráðherra fyrir að hagnast á vændi

Karlmaður á fimmtugsaldri kveðst hafa selt erlendri fiskverkunarkonu blíðu sína og ætlar að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af því sem hann fékk fyrir. Hann hyggst síðan kæra fjármálaráðherra fyrir að hagnast á vændi.

Karlmaðurinn leitaði til fréttastofu í dag og afhenti þar bréf, undirritað af ráðvilltri karlhóru í 101 Reykjavík. Í bréfinu segist hann vilja fá botn í ný lög sem leyfa vændi á Íslandi. Orðrétt segir hann: "Ef ég skildi þetta rétt þá má ég selja líkama minn og löglegt er að kaupa vændi, en þriðji aðili má ekki hagnast á vændinu að viðlögðum refsingum."

Karlmaðurinn segist búinn að útvega sér virðisaukanúmer, orðinn sjálfstæður atvinnurekandi og búinn að afgreiða fyrsta viðskiptavininn, sem mun hafa verið pólsk fiskverkunarkona. Fyrir blíðuna rukkaði maðurinn tíu þúsund krónur. Af því hyggst hann greiða 2450 krónur í virðisaukaskatt. Þá spyr karlmaðurinn í bréfi sínu: "Ert þú þá búinn að hagnast Árni, fyrir hönd ríkisins sem þriðji aðili, ekki satt? Og ættir þá að sæta fangelsi eða sekt..."

Karlmaðurinn ætlar, með stuðningi lögmanns síns, að kæra fjármálaráðherra eftir helgi fyrir að hagnast sem þriðji aðili á vændi. En samkvæmt nýsamþykktri breytingu á hegningarlögum stendur að hver sem hefur tekjur af vændi annarra, skal sæta fangelsi allt að fjórum árum en sektum eða fangelsi allt að einu ári ef málsbætur eru.

Aðstoðarmaður fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því í dag en vísaði á ríkisskattstjóra sem væri yfirmaður skattheimtu í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×