Erlent

Kúbumenn og Svíar í hár saman

Stirt er á milli Svía og Kúbumanna eftir að sænski utanríkisráðherrann sagði mannréttindabrot viðgangast á Kúbu. Svíar saka þá einnig um að hnýsast í póst sænska sendiráðsins í Havana. Kúbumenn segjast á móti ekki hegða sér eins og víkingar forðum daga.

Deilan hófst þegar Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, ávarpaði Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fyrr í vikunni. Þar sagði hann sagði mannréttindabrot framin í mörgum löndum heims, þar á meðal á Kúbu.

Þetta tóku Kúbumenn óstinnt upp. Rudolfo Reyes Rodriguez, fulltrúi Kúbu í Mannréttindaráði SÞ, sagði Kúbumenn, ólíkt Svíum, ekki ofsækja farandverkamenn eða fremja þjóðarmorð til að tryggja að húð- og hárlitur sem minni á víkinga haldist í landinu.

Þetta mislíkaði Svíum. Bildt sagði aðeins fulltrúa örvintingarfullra ríkja láta nokkuð þessu líkt út úr sér. Svíar, sem og aðrir, hafi rétt til að tjá sig um það hverjir þeir telji viðra frelsi og mannréttindi, sem vanti á Kúbu, án þess að þurfa að þola móðgun sem þessa.

Bildt segir að sendiherra Kúbumanna í Svíþjóð hafi verið kallaður til fundar í sænska utanríkisráðuneytinu til að ræða ummæli Rodriguez sem Svíum þættu óásættanleg. Hann var einnig beðinn um að rannsaka hvort yfirvöld í Havana væru að opna póst sem ætti að fara í sænska sendiráðið þar - áður en hann færi í réttar hendur.

Bildt segir slíkt óásættanlegt, alþjóðlegir sáttmálar banni slíkt og þetta megi ekki gerast. Kúbumenn fái að kanna þetta mál og heyra frá Svíum um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×