Innlent

Þyrstur þjófur staðinn að verki

Lögreglan á Akureyri handtók í nótt innbrotsþjóf þar sem hann sat í hægindum sínum og blandaði sér drykk. Maðurinn hafði brotist inn á veitingastað í bænum og eitthvað verið þyrstur því hans fyrsta verk var að fara á barinn og blanda sér í glas. Lögreglan handtók manninn og gistir hann nú fangageymslur. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Ekki fylgdi sögunni hvaða drykk þjófurinn teigaði.

Lögreglan á Akureyri hafði í miklu að snúast í nótt og gærkvöldi. Auk þess að góma innbrotsþjófinn þá var sérstakt átak var með eftirliti ökumanna en nánast allir bílar sem óku um bæinn voru stöðvaðir og ökumenn beðnir um að blása í áfengisblöðru. Tveir reyndust vera yfrir leyfilegum mörkum og voru sendir í blóðprufu. Þá var lögregla með sérstakt eftirlit með skemmtistöðum bæjarins og kannaði meðal annars hvort á stöðunum störfuðu dyraverðir með tilskilin réttindi og sem og aldur gesta staðanna kannaður.

Einn skemmtistaður fékk áminningu fyrir dyravarðarleysi og tveir einstaklingar voru með vafasöm skilríki eins og lögreglan orðaði það. Þá stóð lögreglan á Akureyri reiðan mann að verki þar sem hann var að skemma bíl. Hann gekkst við verknaðinum og var honum ekið heim til hvílu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×