Erlent

Bjuggu í flughöfn í 10 mánuði

Zahra og börn hennar við komuna til Kanada.
Zahra og börn hennar við komuna til Kanada.

Írönsk kona og tvö börn hennar eru loks laus úr prísund sinni á flugvelli í Moskvu, þar sem þau hafa búið síðastliðna tíu mánuði. Zara Kamalfar, sem er 47 ára gömul, var fangelsuð í Íran fyrir þáttöku sína í stjórnmálum. Henni tókst að flýja úr fangelsinu og komast úr landi ásamt 18 ára dóttur sinni og 12 ára syni. Þau ætluðu að komast til Þýskalands, en þar var þeim neitað um landvist og send aftur til Moskvu, þar sem þau höfðu millilent á leiðinni.

Þar tók við tíu mánaða bið eftir að örlög þeirra væru ákveðin. Fjölskyldan notaði almenningssalerni sem baðherbergi og svaf á gólfi flugstöðvarinnar. Rússneskt flugfélag sá aumur á þeim og gaf þeim að borða allan tímann.

Með aðstoð bróður Zöru sem býr í Kanada fengu þau loks landvist þar, og eru loks komin á áfangastað. Eftir hina löngu dvöl í flughöfninni átti sonurinn eina ósk; "Mig langar til að sjá sólina áður en hún sest."

Eiginmanni Zöru tókst einnig að flýja frá Íran, en ekki er vitað hvar hann er niðurkominn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×