Innlent

Nýtt skipurit RÚV afhjúpað

MYND/GVA

Samkvæmt nýju skipuriti Ríkisútvarpsins sem birt var í dag verða stöður framkvæmdastjóra sjónvarps og útvarps lagðar niður um næstu mánaðarmót þegar skipuritið tekur gildi. Helst ber að nefna að staða forstöðumanns fréttasviðs, sem Bogi Ágústsson hefur gegnt hingað til, verður lögð niður. Óðinn Jónsson og Elín Hirst verða áfram yfir fréttum Útvarps og Sjónvarps.

Frétt þessa efnis var birt á vefsíðu RÚV í dag.

Bogi sagði í samtali við Vísi að hann byggist ekki við því að hætta í fréttamennsku. „Ég kom hérna fyrir rétt rúmum 30 árum til þess að vinna við fréttamennsku og það er það sem ég hef haft langmest gaman af,“ sagði Bogi. Aðspurður um skipuritið sagðist hann sáttur við það. „Áherslubreytingarnar eru þær að vægi dagskrárgerðar verður meiri en ég hef ávallt verið á þeirri skoðun að svo eigi að vera.“

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóssins, verður yfir dagskrá Sjónvarps og einn yfirmaður verður með dagskrá beggja rása útvarpsins, Sigrún Stefánsdóttir. Svæðisstöðvar, Textavarp og vefur heyra í nýju skipuriti undir fréttastofu Útvarpsins og íþróttadeildin undir dagskrá Sjónvarps

Bjarni Guðmundsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sjónvarps, verður aðstoðarmaður útvarpsstjóra. Bjarni Kristjánsson verður yfir rekstri og fjármálum félagsins. Hann hefur áður komið að fjármálastjórnun fyrir Íslenska útvarpsfélagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×