Erlent

Miklar efasemdir um palestinska þjóðstjórn

Frá Jerúsalem.
Frá Jerúsalem.

Nýrri þjóðstjórn Palestínumanna hefur verið tekið með miklum fyrirvara á Vesturlöndum og nokkuð ljóst að ekki verður nein stefnubreyting þar fyrr en í ljós kemur hver verða stefnumál hinnar nýju stjórnar. Lykilatriði er að hún verði við kröfum Miðausturlanda-kvartettsins svokallaða um að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis og hafna ofbeldi.

Þjóðstjórnin var stofnuð í kjölfar þess að heimastjórn Palestínumanna var komin í miklar ógöngur eftir að Hamas samtökin náðu þar meirihluta, í kosningum á síðasta ári. Það er á stefnuskrá Hamas að útrýma Ísraelsríki. Það varð til þess að bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hættu efnahagsstuðningi við Palestínumenn.

Stjórnarmynstrið leiddi einnig til mikilla innbyrðis átaka Palestínumanna og féllu tugir manna í þeim. Myndun þjóðstjórnarinnar er einnig tilraun til þess að setja niður þær deilur. Bæði talsmaður Hvíta hússins í Bandaríkjunum og Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sögðu í dag að beðið yrði eftir því að sjá hvað hin nýja stjórn gerði, áður en ákvörðun yrði tekin um hvernig samskiptum við hana yrði háttað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×