Innlent

Hugbúnaðarsérfræðingar dýrir

Hugbúnaðarsérfræðingar eru dýrir og vandfengnir, segir framkvæmdastjóri hjá Nýherja. Þannig skýrir hann þrjátíuþúsund króna reikningi sem staðarhaldari í Iðnó fékk fyrir smá viðvik sérfræðings.

Staðarhaldara í Iðnó blöskraði um daginn þegar hún fékk tæplega 30 þúsund króna reikning fyrir kortersvinnu sérfræðings frá Nýherja. Viðvikið var að breyta matartakkanum á kassanum svo hún gæti lækkað virðisaukaskattinn. Erling Ásgeirsson, framkvæmdastjóri hjá Nýherja segir kerfið í Iðnó nærri fimmtán ára gamalt og eigendur slíkra kerfa hafi fyrir tveimur árum verið hvattir til að endurnýja því óvíst sé að fyrirtækið geti þjónustað það til frambúðar. Erling segir 30 þúsund króna reikning fyrir svona viðvik í sjálfu sér eðlilegan. Þetta sé útkall sem taki í heildina 2-3 tíma. Starfsmaðurinn þurfi að finna handbækur, fara úr sínu verki, keyra á staðinn, finna bílastæði, vinna verkið og svo til baka. Því sé rukkað tveggja tíma útkall. "Þannig er nú þetta starfsumhverfi sem við hrærumst í, verðin eru orðin svona. Hugbúnaðarsérfræðingar eru mjög dýrir og góðir menn eru orðnir vandfengnir."

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×