Erlent

Nígerískir hermenn frelsa Evrópubúa

Glæpamenn í Nígeríu ræna fólki og krefjast lausnargjalds.
Glæpamenn í Nígeríu ræna fólki og krefjast lausnargjalds. MYND/AP

Nígerískir hermenn hafa frelsað þrjá evrópska starfsmenn olíufélags, sem var rænt í Port Harvourt, fyrir nokkrum dögum. Talsmaður hersins segir að árásin á búðir mannræningjanna hefði gengið að óskum og enginn gíslanna hefði meiðst. Breskur olíustarfsmaður og þrír aðrir létu lífið í samskonar björgunaraðgerð í nóvember síðastliðnum.

Tveir Ítalir og einn Frakki eru enn í höndum mannræningja, einhversstaðar í grennd við olíulindir Nígeríu. Þúsundir vestrænna starfsmanna olíufélaga hafa flúið frá Nígeríu undanfarna mánuði, vegna tíðra mannrána. Olíuframleiðsla í landinu hefur dregist saman um 20 prósent.

Upphaflega voru það uppreisnarmenn sem rændu fólki, en þeir kröfðust þess að fá yfirráð yfir olíusvæðum á þeirra landsvæði. Nú eru það hinsvegar hreinir bófar sem ræna fólki, og krefjast lausnargjalds fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×