Erlent

Vilja svipta Adolf ríkisborgararétti

Adolf Hitler.
Adolf Hitler.

Flokksdeild þýskra jafnaðarmanna í Brunswick vill svipta nazistaleiðtogann Hitler ríkisborgararétti, en það var einmitt í þeirri borg sem Austurríkismaðurinn Adolf Hitler fékk þýskan ríkisborgararétt fyrir 75 árum. Hitler afsalaði sér austurrískum ríkisborgararétti árið 1925, en fékk ekki borgararétt í Þýskalandi fyrr en árið 1932,  þegar nazistar í Brunswick útveguðu honum vinnu sem opinber starfsmaður. Það var seint í febrúar.

Sem opinber starfsmaður fékk Hitler sjálfkrafa þýskan ríkisborgararétt og gat boðið sig fram í forsetakosningum tveim mánuðum síðar. Ekki hafði hann erindi sem erfiði í þeim slag, en nazistar urðu fljótlega stærsti flokkurinn á þýska þinginu og Hitler varð kanslari árið eftir.

Símon Kopelke, talsmaður Jafnaðarmanna á þingi í Neðra-Saxlandi sagði að það væri táknræn athöfn að reyna að svipta Hitler ríkisborgararétti, en það væri líka það sem íbúar í Brunswick vildu. Það væri ekkert gaman að vera íbúi í þeirri borg sem hleypti foringjanum inn í Þýskaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×