Innlent

Viðamesta fíkniefnaaðgerð lögreglunnar á Suðurnesjum

MYND/Guðmundur

Tugir lögreglumanna ásamt tollvörðum og fíkniefnahundum tóku þátt í umfangsmikilli aðgerð á Suðurnesjum í gærkvöld til þess að uppræta fíkniefnasölu og dreifingu. Þetta er viðamesta aðgerð af þessum toga í umdæminu að sögn lögreglu. 36 lögreglumenn af Suðurnesjum og frá sérsveit og greiningardeild Ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðunum. Auk þess voru fjórir tollverðir þáttakendur í aðgerðunum og tveir fíkniefnahundar.

Farið var samtímis í fimm húsleitir snemma í gærkvöld og fundust fíkniefni á öllum stöðum. Níu menn voru handteknir og yfirheyrðir vegna meintra fíkniefnabrota. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var lagt hald á 135 grömm af hassi, 65 gömm af hvítu efni og 10 e töflur. Um miðnætti var farið í eina húsleit til og þar lagt hald á meira af fíkniefnum auk þess sem þrír voru handteknir. Samtals var því farið í sex húsleitir og tólf menn handteknir. Lögreglusveitin lét ekki staðar numið þar því farið var á skemmtistaði og gerð líkamsleit á um 20 einstaklingum. Fannst við það lítilræði af amfetamíni.

Með þessum umfangsmiklu aðgerðum er Suðurnesjalögreglan að reyna að koma böndum á fíkniefnabrotamenn sem hafa verið umsvifamiklir í umdæminu síðustu misseri, að sögn lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×