Innlent

Gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla

Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla í málinu gegn forstjórum olíufélaganna. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru þó ekki á eitt sáttir en frumvarpið kveður á um skýrari refsiábyrgð einstaklinga í samkeppnismálum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja Sjálfstæðismenn breyta frumvarpinu þannig að refsiábyrgð verði eingöngu hjá einstaklingum ef um skýran ásetning er að ræða eða stórfellt gáleysi. Saksóknari efnahagsbrota hefur komið fyrir nefndina lýst áhyggjum sínum af þeirri breytingu en slíkt myndi auka sönnunarbyrði og gera ákæruvaldinu þar með erfiðara að sanna sök á einstaklinga í slíkum málum.

Héraðsdómur vísaði máli gegn olíuforstjórunum þremur frá fyrir skemmstu meðal annars á þeim forsendum að ekki væri hægt að sækja einstaklinga til saka í samráðsmálum. Málið er nú hjá Hæstarétti sem getur valið að vísa málinu aftur heim í hérað. Frumvarpið kveður á um að lögfest verði nýtt ákvæði um refsiábyrgð allra starfsmanna, stjórnarmanna og samtaka, sem hvetja til eða hafa með sér ólöglegt samráð.Verði það lögfest fyrir þinglok þurfa dómstólar að taka tillit til þess enda kveða hegningarlögin á um það að ef lög breytast frá því verknaður er framinn þar til dómur fellur skuli ávallt hafa nýrri lögin til hliðsjónar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×