Innlent

Samtök iðnaðarins með athyglisverðasta sýningarsvæðið

Frá sýningunni í Fífunni.
Frá sýningunni í Fífunni. MYND/Valgarður

Sýningarsvæði Samtaka iðnaðarins var nú síðdegis valið það athyglisverðasta á stórsýningunni Tækni og viti 2007, sem haldin er í Fífunni. Önnur verðlaun hlaut fyrirtækið CAOZ, sem sérhæfir sig í gerð tölvugerðra teiknimynda. Fyrirtækin Rue de Net, sem er hugbúnaðarfyrirtæki, og hönnunarfyrirtækið H2 hönnun skiptu síðan milli sín þriðju verðlaunum.

Jafnframt var tilkynnt um úrslit atkvæðagreiðslu um athyglisverðustu vöruna eða þjónustuna á Tækni og viti 2007 að mati fagaðila. Niðurstaðan úr þeirri kosningu var að rafræn skilríki á vegum Auðkennis í samvinnu við fjármálaráðuneytið væru athyglisverðust.

Brynjar Ragnarsson, markaðsstjóri Samtaka iðnaðarins, tók við fyrstu verðlaununum fyrir hönd SI og sagðist hann vera í skýjunum yfir úrslitunum. Sýningarsvæði Samtaka iðnaðarins kallast Sprotatorg og er gróandinn þar í fyrirrúmi. „Við ákváðum strax að vinna með sprotahugmyndina og setja svæðið upp í samræmi við annað kynningarefni sem við höfum unnið fyrir Samtök sprotafyrirtækja. Það er gríðarleg vinna á bak við uppsetningu á svona stóru og viðamiklu sýningarsvæði og vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem hafa tekið þátt í að gera Sprotatorgið að veruleika," sagði Brynjar eftir að tilkynnt var um úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×