Innlent

Sýningin tækni og vit er um helgina

Sýningin tækni og vit er opin almenningi um helgina en á sýningunni kynna mörg helstu hátæknifyrirtæki landsins það nýjasta í tækni og þekkingu. Sýningin stærsti viðburður sem haldinn hefur verið á Íslandi á þessu sviði.

Yfir eitt hundrað aðilar sýna afurðir sínar á Tækni og viti sem fram fer í Fífunni í Kópavogi. Á sýningunni fá gestir m.a. að prófa Formúlu-1 ökuherma sem notaðir eru af ökuþórum Formúlu 1 til að æfa sig milli keppna. Hægt er að fræðast um rafræn skilríki sem send verða til almennings í haust auk þess sem nýja PlayStation 3 leikjatölvan er forsýnd og fá gestir að prófa hana.

Einnig má nefna að Microsoft og Apple sýna það nýjasta sem fyrirtækin hafa upp á að bjóða auk þess sem fjölmargt annað áhugavert er í boði. Skipuleggjendur segja að mikil fjölbreytni einkenni Tækni og vit 2007. Úr tölvugeiranum sýni hugbúnaðar-, vélbúnaðar- og netfyrirtæki afurðir sínar, auk fjarskiptafyrirtækja, orkufyrirtækja iðntæknifyrirtækja, sveitarfélaga, opinberra stofnana og ráðuneyta, skóla, fjármálafyrirtækja og fjölmiðla. Sýningin verður opin frá hádegi til klukkan fimm í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×