Erlent

Tímamótasamningur Evrópusambandsins

Tímamótasamningur um loftslagsmál var samþykktur núna rétt fyrir hádegið af 27 leiðtogum ríkja Evrópusambandsins sem sitja loftslagsráðstefnu í Brussel. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, lagði samkomulagið fyrir ráðstefnuna í morgun og hvatti leiðtogana til að skrifa undir en þar er gert ráð fyrir að ekki minna en 20 prósent af orkunotkun sambandsríkja komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum, meðal annars vind- og sólarorku. Samkomulagið er málamiðlun en hörð andstaða hefur verið við slíkt samkomulag frá ákveðnum ríkjum. Einhver sveigjanleiki er inn í samningnum svo þau ríki sem eru háð kjarnorku, eins og Frakkland og Tékkland, eða kolum, eins og Pólland, láti til leiðast og skrifi undir samkomulagið. Leiðtogar fátækari ríkja Austur-Evrópu telja að það yrði þeim dýrt að standa við markmið samkomulagsins.

Angela Merkel vonast til að með þessu skapist þrýstingur á Bandaríkin og önnur iðnríki til að fylgja á eftir Evrópusambandinu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í gær náðu 27 leiðtogar Evrópusambandsins samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20 prósent fyrir 2020, miðað við losunina eins og hún var árið 1990, og buðust til að fara upp í 30 prósent ef aðrar þjóðir gerðu slíkt hið sama. Merkel lýsti því sem risaskrefi fram á við.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×