Fótbolti

Ronaldo ætlar að sitja fyrir nakinn

Ronaldo segist vera í toppformi
Ronaldo segist vera í toppformi NordicPhotos/GettyImages

Brasilíski framherjinn Ronaldo hjá AC Milan og fyrrum leikmaður Real Madrid, segir að leikmenn spænska liðsins vantreysti þjálfara sínum Fabio Capello. Ronaldo gagnrýnir vinnuaðferðir Ítalans harðlega, en þeir tveir áttu sem kunnugt er litla samleið hjá Real fyrr í vetur. Hann segist líka vera orðinn hundleiður á því að fólk kalli hann feitan.

"Það er engin trú á störf Capello í herbúðum Real og hann er mjög erfiður í samskiptum eins og sést hefur á sambandi hans við leikmennina í vetur," sagði Ronaldo í samtali við ítalska fjölmiðla og skaut líka á fyrrum þjálfara sinn Hector Cuper - og kennir honum um brottför sína frá Ítalíu á sínum tíma.

Ronaldo lék með liði Inter Milan áður en hann gekk í raðir Real Madrid en þar vill hann meina að Cuper hafi hrakið sig á dyr. "Cuper er verri en Capello ef eitthvað er, því Capello hefur að minnsta kosti unnið eitthvað á ferlinum. Hvað hefur Cuper unnið?" sagði Ronaldo og tók loks af allan vafa um líkamlegt form sitt - en hann hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að vera of feitur.

"Fyrr eða síðar mun ég sitja fyrir nakinn til að binda enda á þetta tal um að ég sé feitur," sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×