Innlent

Sátt um auðlindaákvæðið á næstu dögum

Formenn stjórnarflokkanna stefna að sameiginlegri niðurstöðu um auðlindaákvæðið sem framsóknarmenn hafa lagt þunga áherslu á að fari inn í stjórnarskrá. Forsætisráðherra á von á því að lending náist í málinu á næstu dögum.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær herma heimildir fréttastofu að Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins hafi krafist þess að málið um auðlindaákvæðið yrði frágengið áður en þing kemur saman á morgun. Þegar fréttastofa náði sambandi við formann Framsóknarflokksins í dag og spurði út í þennan frest, svaraði Jón því til að margir frestir væru í mismunandi málum. Hann segir þá Geir Haarde forsætisráðherra hafa rætt saman í bróðerni í dag um fjölda mála og stefnt væri að sameiginlegri niðurstöðu. Hann á ekki von á öðru en að sátt náist í þessu máli. Endanleg útfærsla sé hins vegar ekki í hendi. Geir kannast ekki við að hafa fengið neina fresti í málinu.

"Ég hef ekki fengið neina úrslitakosti frá þeim. Við erum bara að ræða þessi mál í bróðerni eins og við gerum alltaf," segir Geir H. Haarde.

En á hann von á að lending náist í málinu á næstu dögum? "Já ég á von á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×