Erlent

Mannskæður jarðskjálfti í Indónesíu

Óttast er að í það minnsta sjötíu manns hafi farist í tveimur jarðskjálftum sem riðu yfir Súmötru í Indónesíu í morgun. Engin flóðbylgja myndaðist vegna skjálftanna en miklar skemmdir urðu hins vegar á mannvirkjum.

Fyrri skjálftinn reið yfir laust fyrir klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma og var hann af stærðinni 6,3. Upptök skjálftans voru um fimmtíu kílómetra frá borginni Padang á eynni Súmötru. Hans varð greinilega vart í Singapúr og Malasíu, mörg hundruð kílómetra í burtu. Um tveimur klukkustundum síðar reið seinni skjálftinn yfir en stærð hans var nákvæmlega sex stig. Að sögn indónesískra stjórnvalda er talið að í það minnsta sjötíu manns hafi týnt lífi í skjálftunum. Sá fjöldi gæti þó verið enn meiri því vegir hafa rofnað til sumra bæja á skjálftasvæðunum og þar er jafnframt símasambandslaust. Í Padang og nálægum byggðarlögum virðast mörg hundruð hús hafa hreinlega jafnast við jörðu. Sjúkrahús á skjálftasvæðunum eru yfirfull af slösuðu fólki og þar ríkti öngþveiti í dag. Mikill ótti greip að vonum um sig á meðal íbúa svæðisins og voru margir þeirra of skelkaðir til að snúa aftur til síns heima þegar tók að kvölda. Flóðbylgjan mikla á annan dag jóla 2004 er enda öllum enn í fersku minni en þá fórust 130.000 íbúar Súmötru. Engin flóðbylgja fór hins vegar af stað að þessu sinni því skjálftinn varð undir landi en ekki hafsbotninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×