Erlent

Áttundi hver Íraki á flótta

Tugþúsundir Íraka flosna upp frá heimilum sínum í hverjum mánuði.
Tugþúsundir Íraka flosna upp frá heimilum sínum í hverjum mánuði. MYND/AP

Áttundi hver Íraki er orðinn flóttamaður að sögn yfirmanns Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hann segir að 40-50 þúsund manns flosni upp af heimilum sínum í hverjum mánuði. Antonio Guterres upplýsti þetta á fundi Arababandalagsins í Kaíró.

Guterres segir að um tvær milljónir Íraka hafi flúið til annarra landa og að upp undir aðrar tvær milljónir séu á flótta innanlands. Íbúar Íraks eru um 27 milljónir. Mikið er um að fólk flytjist á milli héraða eftir því hverrar trúar það er.

Súnnímúslimar flýja úr héruðum þar sem sjíar eru í meirihluta og öfugt. Þetta hefur orðið til að ýta undir fullyrðingar um að í raun ríki borgarastyrjöld í landinu sem sé að sundra landinu í að minnsta kosti þrjá hluta þegar tekið sé tillit til Kúrdahéraðanna í norðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×