Innlent

Ókeypis hafragrautur handa svöngum nemendum

Grunnskóli á Akureyri hefur brotið blað í sögu skóla þar í bæ með því að bjóða öllum nemendum sínum upp á ókeypis hafragraut. Börnin taka árbítnum fagnandi og rennur grauturinn ofan í maga nemenda í stríðum straumum.

Ein ástæða þess að Brekkuskóli tekur þetta skref er að sögn skólastjóra sú að of mikið er um það um allt land að nemendur mæti hreinlega svangir í skólann á morgnana. Aðstoðarskólastjórinn á heiðurinn af hugmyndinni og verður gerð tilraun með þetta í mánuð - frír grautur fyrir nemendur og starfsfólk. Skemmst er frá því að segja að grauturinn sló í gegn í morgun - hjá börnunum að minnsta kosti - og er árbíturinn holli væntanlega kominn til að vera.

Kannski kemur á óvart að hafragrautshefðin lifi af allar þær breytingar sen orðið hafa á neyslulífi landans. En Brekkuskólabörnin voru himinsæl með grautinn sinn. Og sumum fannst hann jafnvel betri en hjá mömmu og pabba.

Að minnsta kosti fimm skólar á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á slíka þjónustu. Fellaskóli, Laugalækjarskóli, Vesturbæjarskóli og Lækjarskóli bjóða allir upp á hafragraut á morgnanna. Engjaskóli býður nemendum auk þess upp á lýsi ef þeir vilja en ekki fer miklum sögum af vinsældum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×