Innlent

Akureyrarbær boðar kennara á sérfund

Ríkissáttasemjari hefur ákveðið að funda með kennurum vegna kjaradeilunnar. Akureyrarbær hefur einnig boðað sína kennara á sérfund og er fyrsta sveitarfélagið sem tekur það það skref.

Deilan milli grunnskólakennara og viðsemjenda í launanefnd sveitarfélaga er í hörðum hnút og hefur Ríkissáttasemjari nú ákveðið að funda með kennurum vegna þeirra hugmynda sem komið hafa upp um gerðardóm. Þar yrði sérstaklega rætt um svokallað endurskoðunarákvæði og verður fundurinn væntanlega á morgun. Ef gerðardómur mun úrskurða í deilunni fellur forræði launanefndarinnar og samningsumboð niður.

Akureyrarbær hefur ákveðið að stíga það skref fyrst sveitarfélaga á landinu að boða til sérstaks fundar með sínum kennurum nú í vikunni. Formaður bæjarráðs situr einnig í launanefndinni. Hann segir að þótt þetta skref verði stigið þýði það ekki að bærinn hyggist kljúfa sig út og reyna sérsamninga.

Daníel Freyr Jónsson formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra fagnar frumkvæði Akureyrarbæjar að falast eftir þessum fundi.

Hann segir að einu gildi fyrir kennara hvort samið sé við einstök sveitarfélög eða launanefndina, niðurstaðan sé aðalmálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×