Innlent

Íslendingar kosta skólamáltíðir í Úganda

Valgerður á ferð sinni um flóttamannabúðirnar.
Valgerður á ferð sinni um flóttamannabúðirnar. MYND/Vísir

Íslensk stjórnvöld ætla að kosta skólamáltíðir 65.000 barna á átakasvæðum Norður-Úganda næstu tvö árin. Með ákvörðuninni kemst Ísland í hóp þeirra ríkja sem verja mestu fé til Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Úganda, sé miðað við höfðatölu. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, heimsótti á dögunum flóttamannabúðir á svæðinu.

Átök stjórnarhersins í Úganda og hins svonefnda Frelsishers Drottins í norðurhluta landsins hafa staðið yfir í tvo áratugi. Þúsundir borgara hafa látið lífið í átökunum og um ein milljón manna hefur hrakist af heimilum sínum. Þriðjungur þessara flóttamanna býr í Pader-héraði en níutíu prósent íbúa þess eru á vergangi.

Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna sér þorra íbúa átakasvæðanna fyrir mat. Hver fjölskylda fær einu sinni í mánuði matarkörfu sem samanstendur af korni, olíu og sojabaunum. Auk þess sér Matvælahjálpin grunnskólabörnum fyrir máltíðum sem þau geta ýmist borðað í skólanum eða tekið með sér heim. Þetta verkefni hyggjast íslensk stjórnvöld styrkja fyrir um hundrað milljónir króna á næstu árum. Ætlunin var að kosta daglega jafnmargar máltíðir og nemur fjölda íslenskra skólabarna, eða um 45 þúsund. Þar sem innlent hráefni er notað í máltíðirnar reyndist hins vegar unnt að kosta máltíðir 65 þúsund barna. Þetta segir Valgerður Sverrisdóttir mikið ánægjuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×