Erlent

Hermenn handtaka stjórnarandstöðuliða

Forseti Úganda, Yoweri Museveni, þykir gerast æ líkari forverum sínum í starfi.
Forseti Úganda, Yoweri Museveni, þykir gerast æ líkari forverum sínum í starfi. MYND/AFP

Vopnaðir menn í herklæðum umkringdu í dag hæstarétt í Úganda og numu á brott sex sakborninga í réttarhöldum sem þar fóru fram. Mennirnir höfðu nokkrum mínútum áður verið látnir lausir gegn tryggingargjaldi. Þeir voru allir stuðningsmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Kizza Besiyge. Sams konar árás var gerð árið 2005 á stuðningsmenn Besiyge.

Vitni segja að mennirnir sex hafi verið lamdir illa fyrir utan hæstarétt áður þeim var hent inn í bíl og síðan ekið með þá í fangelsi á ný. Samtök Besiyge segja ákærurnar gegn þeim vera skáldskap stjórnvalda sem vilji koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan stækki. Fundum með henni er iðulega aflýst af stjórninni og lögreglumenn eða hermenn tvístra mannfjöldanum sem mætir.

Besiyge var sjálfur ákærður fyrir nauðgun og landráð í fyrra og drógu alþjóðleg samtök þá úr stuðningi við Úganda. Alþjóðlegir fréttaskýrendur óttast að forseti Úganda Yoweri Museveni sé farinn að stjórna með sífellt harðari hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×