Erlent

Offita barns til félagsmálayfirvalda

Connor ásamt mömmu sinni fyrir utan heimili þeirra í Wallsend.
Connor ásamt mömmu sinni fyrir utan heimili þeirra í Wallsend. MYND/AP

Móðir átta ára gamals drengs sem vegur tæp 90 kíló bíður nú úrskurðar um hvort félagsmálayfirvöld taki son hennar til umönnunar. Connor McCreaddie vó rúm hundrað kíló fyrir síðustu jól. Það er fjórföld meðalþyngd heilbrigðs átta ára barns. Á tveimur mánuðum hefur hann lést um tæp tíu kíló eftir stranga æfingaáætlun og heilbrigðara mataræði.

Að sögn Sky fréttastofunnar gætu yfirvöld þrátt fyrir það tekið þá ákvörðun að setja hann í umönnun annarra.

Nicola McKeown, móðir Connors, er 35 ára. Hún er þunglynd og segist ekki hafa fengið nægilega hjálp frá yfirvöldum, en vonar að á fundi með yfirvöldum í norður Tyneside á morgun takist henni að sannfæra fulltrúana um að hún geti séð um drenginn. Þau munu bæði vera viðstödd fundinn.

Connor hefur sótt skóla þrátt fyrir athyglina sem hann hefur fengið vegna málsins, en móðir hans hélt honum heima í dag til að undirbúa hann undir fundinn.

Nicola segist vonast til að hún fái áfram að sjá um son sinn og neitar að hún hafi vanrækt hann.

Yfirvöld segja í tilkynningu að þau hafi áhyggjur af heilsu og velferð barnsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×