Erlent

Harðari viðurlög við farsímabrotum í akstri

Í dag taka í gildi í Breatlandi harðari viðurlög ef ökumenn tala í farsíma án haldfrjáls búnaðar. Þeir sem brjóta lögin fá þrjá punkta í ökuskírteinið og sektin sem var tæpar fjögur þúsund krónur hækkar í rúmar sjö þúsund krónur. Þá geta ökumenn átt á hættu að vera sviptir ökuleyfi.

Árið 2005 voru 13 dauðsföll í umferðinni rakin beint til notkunar farsíma og er talið að notkun þeirra fjórfaldi áhættuna á að lenda í árekstri.

Á fréttavef Sky kemur fram að dómstólar geta hækkað sektina upp í rúmar hundrað þúsund krónur. Ef um er að ræða Rútu- eða sendiferðabílstjóra getur sektin hækkað upp í rúmar þrjú hundruð þúsund krónur, en þeir eru taldir tvisvar sinnum líklegri til að brjóta farsímalögin en aðrir ökumenn.

Félag bifreiðaeigenda í Bretlandi segir aðgerðirnar fölna í samanburði við fangelsisvist fyrir að valda dauða einhvers með gáleysislegum akstri.

Félagið leggur til að fyrirtæki setji strangari reglur fyrir starfsmenn sína á vegum úti.

Haft er eftir talsmanni félagsins að lögregla geti fengið símafærslur frá símafyrirtækjum um notkun ökumanns stuttu fyrir árekstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×