Innlent

Vandi einstæðar móður sem glímt hefur við afleiðingar heilablóðfalls leystur

Bæjarstjórnin í Mosfellsbæ hefur ákveðið að leysa úr vanda einstæðrar móður sem hefur verið í endurhæfingu eftir heilablóðfall og beðið í á þriðja ár eftir félagslegu húsnæði þar í bæ. Sjálf segist hún himinlifandi með málalokin.

Eins og Fréttastofa Stöðvar 2 hefur greint frá, hefur Steinunn Jakobsdóttir glímt við afleiðingar heilablóðfalls sem hún fékk aðeins 27 ára gömul. Samfara stífu endurhæfingaferli hafa hún og foreldrar hennar beðið um félagslegt húsnæði í Mosfellsbæ þar sem börn hennar tvö ganga í skóla. Á föstudag þegar við heimsóttum Steinunni í endurhæfingaríbúð Sjálfsbjargar var hún úrkula vonar um að fá lausn í þeim málum eftir síendurteknar neitanir af hálfu Mosfellsbæjar og sá hún fram á að vera húsnæðislaus á næsta fimmtudag.

En í dag birti til í lífi Steinunnar.

Hún sagði í samtali við Fréttastofu að í morgun hafi hún fengið símtal frá Ragnheiði Ríkarðsdóttir, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, þar sem hún sagði henni að bæjaryfirvöld hafi ákveðið að leita lausnar í húsnæðisvandræðum Steinunnar.

Aðspurð um hvaða lærdóm hún hafi dregið af baráttu sinni fyrir félagslegum úrræðum í húsnæðismálum sínum, sagði hún brosandi að allt sé fötluðum fært, eina sem þurfi er að hafa bein í nefinu.

Steinunn vildi líka koma á kæru þakklæti til allra þeirra sem hafa haft samband við hana að undanförnu og tjáð henni stuðning sinn og aðstoð. Sá stuðningur hafi henni reynst ómetanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×