Körfubolti

Kidd með þrefalda tvennu

Á góðum degi er Jason Kidd engum líkur.
Á góðum degi er Jason Kidd engum líkur. MYND/Getty

Jason Kidd lét brákað rifbein ekki stöðva sig í viðureign New Jersey gegn Sacramento í NBA-deildinni í nótt heldur náði hann sinni níundu þreföldu tvennu á leiktíðinni í 109-96 sigri sinna manna. Þetta var í 84. skiptið á ferlinum sem Kidd nær þrefaldri tvennu. Fjölmargir leikir fóru fram í NBA í nótt.

Kidd skoraði 22 stig, hirti 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í öruggum sigri New Jersey og réðu leikmenn Sacramento ekkert við leikstjórnandann snjalla. Frammistaðan er sérstaklega eftirtektarverð í ljósi þess að Kidd var tæpur fyrir leikinn, enda með brákað rifbein eftir samstuð í vikunni.

Utah hafði betur gagn Denver, 114-104, þar sem Deron Williams skoraði 26 stig og gaf 14 stoðsendingar. Carmelo Anthony og Allen Iverson voru sem fyrr aðalmennirnir hjá Denver, sá fyrrnefndi skoraði 36 stig en síðarnefndi 33 stig. Það dugði hins vegar ekki til gegn sterkri liðsheild Utah.

Kobe Bryant skoraði 25 af 38 stigum sínum í fyrri hálfleik þegar Lakers bar sigurorð af Boston á heimavelli sínum, 122-96. Gerald Green var atkvæðamestur hjá Boston með 21 stig.

Phoenix lagði Minnesota af velli, 116-104. Shawn Marion skoraði 27 stig fyrir Phoenix og Leandro Barbosa skoraði 24 stig og Amare Stoudemire 23 stig, en hjá Minnesota var Kevin Garnett með 27 stig og 19 fráköst.

Luol Deng skoraði 32 stig, það mesta sem hann hefur gert á ferlinum, þegar Chicago lagði Washington af velli, 105-90. Gilbert Arenas skoraði 36 stig fyrir gestina.

New Orleans vann Seattle naumlega, 98-97, þar sem Ray Allen misnotaði skot á síðustu sekúndu leiksins sem hefði tryggt gestunum sigur. David West skoraði 23 stig fyrir New Orleans en hjá Seattle var áðurnefndur Allen stigahæstur með 32 stig.

Þá vann Charlotte sinn fjórða sigur í röð með því að leggja Philadelphia af velli, 102-87. Adam Morrison, Matt Carroll og Gerald Wallace skoruðu allir 19 stig hver fyrir Charlotte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×