Erlent

Halla og Jude í heimspressunni

Kynnum Höllu Vilhjálmsdóttur og breska leikarans Jude Law, eru gerð góð skil í bresku pressunni, í dag. Í The Sun eru birtar fjölmargar flennistórar myndir af Höllu, sem sögð er unaðslegur kynnir hjá hinum íslenska X-Factor. Talað er um kertaljósakvöldverð, sveitt pöbbarölt og kossaflens á dansgólfinu, sem hefði verið nóg til þess að fá dómara í X-Factor til þess að roðna.

Það er kannski rétt að minnast þess að The Sun á það til að ganga dálítið langt í hástemmdum lýsingum sínum, og þær eru ekki allar mjög nákvæmar. Til dæmis er sagt frá því að Jude og Halla hafi farið á hinn dragfína klúbb Sirkus.

Þar hafi þau látið vel hvort að öðru og svo horfið út í nóttina. The Sun vitnar í ónafngreindan gest á Sirkus sem fullyrðir að þau hafi ekki farið til þess að fá sér frískt loft.

The Sun fullyrðir einnig að síðan Jude sneri heim til Englands hafi þau verið í stöðugu símasambandi. Sjálfsagt haft eftir jafn áreiðanlegum heimildarmanni og gestinum á Sirkus. The Sun rekur feril Höllu í stuttu máli. Segir frá leiklistarnámi hennar í Guilford í Surrey og að hún hafi unnið eitthvað fyrir ITV og BBC. Hjarta hennar stefni nú til Lundúna, þar sem hún vilji slá í gegn sem leikkona.

Lesendum er boðið að bregðast við fréttum á The Sun og einn þeirra skrifar að ef allar konur á Íslandi líti út eins og Halla, sé hann fluttur norðureftir. Eina vandamálið sé hvernig í fjáranum eigi að bera fram eftirnafn hennar.

Sjáið fréttina í The Sun hér...




Fleiri fréttir

Sjá meira


×