Erlent

Á svifdreka í 10 þúsund metra hæð

Svifdrekar eru ekki gerðir fyrir flug í 10 þúsund metra hæð.
Svifdrekar eru ekki gerðir fyrir flug í 10 þúsund metra hæð.

Þýsk kona slapp á undraverðan hátt frá svifdrekaflugi, um síðustu helgi, þar sem óveður þeytti henn i upp í tíuþúsund metra hæð. Það er sama hæð og farþegaþotur fljúga í. Í slíkri hæð er frostið um fjörutíu stig og nánast ekkert súrefni, enda missti konan meðvitund.

Ewa Wisnierska er heimsmeistari í svifdrekaflugi og hún var að búa sig undir að verja titil sinn í heimsmeistarakeppni sem fer fram við bæinn Manilla, í Ástralíu. Hún fór í æfingaflug um helgina og lenti í óvæntu þrumuveðri sem tók af henni öll völd. Gríðarlegt uppstreymi þeytti drekanum upp í tíuþúsund metra hæð, og þar missti hún meðvitund.

Alls var Ewa á lofti í fjörutíu mínútur, en hún gerir sér ekki grein fyrir hversu lengi hún var meðvitundarlaus. Hún rankaði við sér þegar drekinn lækkaði flugið, og tókst að lenda heilu og höldnu. Hún er með kalsár á eyrum og marbletti eftir haglél, en sakaði ekki að öðru leyti. Og hún er ákveðin í að taka þátt í heimsmeistarakeppninni, sem haldin verður í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×