Erlent

Osama bin Laden snýr aftur

Osama bin Laden, leiðtogi Al Kæda.
Osama bin Laden, leiðtogi Al Kæda. MYND/AP

Æðstu leiðtogar Al Kæda eru búnir að endurheimta að mestu leyti stjórn sína yfir hryðjuverkasamtökunum, að sögn bandaríska blaðsins New York Times. Blaðið hefur þetta eftir bandarískum leyniþjónustumönnum, sem segja að bæði Osama bin Laden og næstráðandi hans Ayman al-Zawahri komi nú beint að stjórn samtakanna.

Enginn veit hvar þessir tveir menn eru í felum en New York Times hefur eftir leyniþjónustumönnunum að þeir séu að byggja upp nýjar þjálfunarbúðir í Waziristan héraði í Pakistan. Þeim sem þar séu þjálfaðir sé ætlað að gera árásir bæði í Afganistan og á vesturlöndum.

Þjálfunarbúðirnar eru ekki enn orðnar jafn stórar og vel búnar og búðirnar sem Al Kæda hafði í Afganistan meðan talibanar réðu þar ríkjum, en tíu til tuttugu menn eru í í hverjum búðum fyrir sig og eru þjálfaðir til sérstakra verkefna.

Vegna stórsóknar í baráttunni gegn hryðjuverkum eftir árásirnar á New York riðlaðist yfirstjórn Al Kæda um skeið, en er nú aftur að taka við stjórntaumunum, samkvæmt þessum heimildum.

Breska leyniþjónustan hefur rakið til Al Kæda áætlun um að sprengja í loft upp allt að tíu farþegaþotur á leið frá Evrópu til Bandaríkjanna, á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×