Körfubolti

Dallas marði sigur á Houston

Dirk Nowitzki var eins og svo oft áður stigahæstur í liði Dallas í nótt.
Dirk Nowitzki var eins og svo oft áður stigahæstur í liði Dallas í nótt. MYND/Getty

Dallas vann sinn níunda leik í röð í NBA-deildinni þegar liðið bar sigurorð af Houston í nótt. Bakvörðurinn Jason Terry var maðurinn á bakvið sigur Dallas, en hann skoraði mikilvægar körfur á lokamínútum leiksins. Cleveland lagði LA Lakers í hinum leik næturinnar en nú verður gert hlé á deildarkeppninni vegna stjörnuleiksins sem fram fer á sunnudag.

Dallas þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum í nótt, enda hefur Houston verið á góðri siglingu í deildinni að undanförnu og hafði fyrir leikinn unnið 8 af síðustu 10 leikjum sínum. Dallas er hins vegar illviðráðanlegt á góðum degi og er engin tilviljun að liðið státar af besta vinningshlutfalli deildarinnar þegar stjörnuhelgin fer fram. Liðið hefur unnið 44 leiki en tapað aðeins níu.

Lokatölur leiksins í nótt voru 80-77, Dallas í vil. Dirk Nowitzki var atkvæðamestur hjá Dallas, skoraði 26 stig og hirti átta fráköst. Jerry Stackhouse skoraði 17 stig og Josh Howard 15. Hjá Houston var Tracy McGrady með 27 stig og 10 fráköst.

LeBron James skyggði á Kobe Bryant með því að skora 38 stig í sigurleik liðsins á LA Lakers, 114-108. Bryant lét reyndar sitt ekki eftir liggja og skoraði 34 stig, en það dugði ekki til. Cleveland sigraði 114-108, en þetta var fimmta tap Lakers í röð og 11 tap liðsins í síðustu 15 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×