Körfubolti

Boston Celtics sett nýtt félagsmet

Paul Pierce lifði sig inn í leikinn í nótt, eins og sést á þessari mynd.
Paul Pierce lifði sig inn í leikinn í nótt, eins og sést á þessari mynd. MYND/Getty

Boston Celtics setti nýtt félagsmet í NBA-deildinni í nótt með því að tapa 17. leik sínum í röð. Í þetta sinn steinlá liðið á heimavelli fyrir New Jersey, 92-78, þrátt fyrir að Paul Pierce, helsta stjarna liðsins, hafi spilað með liðinu á ný eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Fjölmargir leikir fóru fram í NBA í nótt.

Pierce hefur misst af síðustu 24 leikjum Boston og eins og tölfræðin gefur til kynna hefur hans verið sárt saknað. Þetta var enn fremur 13. tap Boston í röð á heimavelli. Pierce var greinlega ryðgaður því hittni hans var ekki með besta móti og skoraði hann aðeins níu stig. Reyndar var skotnýting Boston-liðsins utan af velli arfaslök, eða 35%. Vince Carter skoraði 21 stig fyrir New Jersey og Marcus Williams 17.

Toronto Raptors sigraði LA Lakers, 96-92, og vann sinn 27. sigur á tímabilinu. Það er jafnmikið og liðið vann á öllu síðasta tímabili. Toronto hefur nú unnið fimm leiki í röð. Chris Bosh skoraði 29 stig og hirti 11 fráköst.

Dwight Howard skoraði sigurkörfu Orlando gegn San Antonio í nótt þegar aðeins 0,2 sekúndur voru eftir. Howard tróð þá boltanum í körfu San Antonio en lokatölur urðu 106-104.

Denver lagði Indiana af velli, 102-95. Carmelo Anthony skoraði 34 stig fyrir Denver.

Meistarar Miami áttu aldrei möguleika gegn LeBron James og félögum í Cleveland í nótt og steinláu, 103-79. James skoraði 29 stig í leiknum.

Þá tapaði Phoenix nokkuð óvænt fyrir Atlanta í nótt, 120-111. Miklu munaði um að Steve Nash, leikstjórnandi Phoenix, gat ekki leikið með vegna meiðsla og nýttu leikmenn Atlanta það sér til hins ýtrasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×